Um Hymnodiu

Hymnodia þýðir dýrðarsöngur. Þetta er latnesk útgáfa gríska orðsins hymnos. Hymnodia er í raun sálmasöngur bundinn í ljóðform, lofsöngur við helgihald kristinna manna. Upphaflega var þetta þó söngur safnaðarins sjálfs við helgihaldið. Á síðari árum hefur almennur söngur verið hafinn til vegs á ný í kirkjum og því má segja að við séum komin aftur til upphafsins og söngur kirkjugesta sé hinn eini og sanni hymni. En Hymnodia er líka kammerkór Eyþórs Inga Jónssonar, organista og söngstjóra við Akureyrarkirkju. Í kórinn hefur Eyþór valið einvalalið söngfólks til þess að flytja metnaðarfulla kórtónlist, bæði kirkjuleg verk og veraldleg. Hymnodia hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni og aðallega flutt samtímatónlist og tónlist frá barokktímanum.

Kórinn flutti vorið 2006 verkið Membra Jesu nostri eftir Dietrich Buxtehude og fékk til liðs við sig íslenskt og sænskt barokktónlistarfólk ásamt sænsku barokksöngkonunni Önnu Zander. Tónleikarnir voru lofaðir mjög og sama má segja um frumflutning á Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands eftir Karólínu Eiríksdóttur vorið 2008. Þar komu fram með Hymnodiu einsöngvararnir Bergþór Pálsson og Ingibjörg Guðjónsdóttir, Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari og Gunnlaugur Torfi Stefánsson kontrabassaleikari. Af öðrum verkefnum má nefna að Hymnodia hefur frumflutt verk eftir íslensk tónskáld, komið fram á Hólahátíð, á sumartónleikum í Akureyrarkirkju, við helgihald í kirkjunni og þrívegis á Myrkum músíkdögum. Haustið 2008 kom út fyrsta plata Hymnodiu þar sem er að finna 17 verk fyrir kór án undirleiks eftir íslenskar konur. Platan fékk frábæra dóma og Morgunblaðið setti hana meðal annars í fjórða sæti yfir bestu plötur ársins. Í framhaldi af útgáfunni var Hymnodiu boðið að koma til Sviss og syngja á þrennum tónleikum í Zürich og nágrenni. Sú ferð var farin í september 2009. Hymnodia er líka stofnfélagi í Barokksmiðju Hólastiftis og tók þátt í fyrstu barokkhátíðinni á Hólum í júní 2009.

Félagatal 2016-2017

Sópran

Halla Jóhannesdóttir
Helena Guðlaug Bjarnadóttir
Jóna Valdís Ólafsdóttir
Þórhildur Örvarsdóttir

Alt

Arnbjörg Sigurðardóttir
Elvý Guðríður Hreinsdóttir
Erna Þórarinsdóttir
Herdís Ármannsdóttir

Tenór:

Guðjón Hausksson
Hjörleifur Hjálmarsson
Pétur Halldórsson
Guðlaugur Viktorsson

Bassi:

Hannes Sigurðsson
Michael Jón Clarke
Sigmundur Sigfússon
Stip Bos

Stjórnandi:

Eyþór Ingi Jónsson

Deildu þessu endilega 🙂Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter