Tónleikar Kammerkórs Norðurlands framundan

Kærir vinir okkar í Kammerkór Norðurlands halda tvenna tónleika um næstu helgi, 21. og 22. maí. Við erum svo heppin að hafa fengið að vinna af og til með þessu fólki og getum svo sannarlega mælt með því að fólk drífi sig á aðra tónleikana þeirra – eða jafnvel báða 🙂

Kammerkórinn á auðvitað sína síðu á Facebook og hefur sett upp sérstakan viðburð þar til að auglýsa tónleikana. Í kynningartextanum segir:

Hinn margrómaði Kammerkór Norðurlands blæs til tónleika!

Guðmundur Óli Gunnarsson

Guðmundur Óli Gunnarsson er stjórnandi kórsins (Mynd: Ísmús.is)

Síðastliðin tíu ár má heita að kórinn hafi ekki sungið orð á erlendum tungumálum. Það breyttist snögglega í fyrra þegar verkefni í menningarhúsinu Hofi fóru að sankast að kórnum; með Steve Hackett, Dimmu og Gretu Salome, auk Jólaóratoríu Bach (sem ávallt er jú sungin á þýsku….). Nú komum við til dyranna eins og við erum klædd, með kraftmikið prógramm sem að megninu til samanstendur af lögum sem íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir kórinn. Hér er sungið um Hrun og Baug og barn sem fætt er hundi, töfrandi taktþrautir Snorra Sigfúsar tiplaðar við vísur Æra-Tobba, Jóna sungin í svefn í Ytra-Garðshorni og imprað á tengslum álfa við fyrirhrunsbanka. Eldheit ást tendrast af baugalínu, heimsljós hnígur, hold er mold….
Við þetta bætast svo hjartfólgnar ættjarðarperlur: Land míns föður, Hver á sér fegra föðurland, Ísland ögrum skorið.
Melódískt og metnaðarfullt prógramm!

Húsavík – Laugardaginn 21.maí kl.16:00 – Borgarhólsskóla.

Dalvík – Sunnudaginn 22.maí kl.16:00 – Menningarhúsinu Bergi.

Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Miðaverð 2000kr.
ATH. enginn posi á staðnum.

Deildu þessu endilega 🙂Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter