Stórtónleikar í Akureyrarkirkju 15. október 2017

Sunnudaginn 15. október verður stórviðburður í Akureyrarkirkju. Þrjú verk eftir Michael Jón Clarke verða flutt af einvalaliði listamanna. Fyrst á dagskrá er nýtt tónverk, Tíu myndbrot, frumflutt af Hymnodiu og 12 manna kammersveit. Í tíu þáttum leikur Michael sér með ýmis brot úr verkum Emils Thoroddsens svo úr verður nýstárlegur og skemmtilegur spuni.

Einnig verður flutt nýlegt verk, Te Deum sem Michael samdi sérstaklega fyrir kór Akureyrarkirkju. Kórinn flytur verkið ásamt Hymnodiu, Eyþóri Inga á orgel og Helga Þorbirni Svavarssyni á horn. Helena G. Bjarnadóttir syngur einsöng.

Loks frumflytur Eyþór Ingi Jónsson orgelkonsert sem Michael samdi sérstaklega fyrir hann. Við flutning konsertsins nýtur Eyþór aðstoðar kammersveitar og Hymnodiu. Verkið er í þremum köflum og þar skiptist á rómantík og dramatík.  Spunakafli er í fyrsta kafla verksins þar sem Eyþór spilar af fingrum fram og fléttar saman stefjum konsertsins og og öðrum þekktum stefjum úr umhverfinu.

Hljómsveitina skipa Lára Sóley Jóhannsdóttir og Marteinn Jakob Ingvason Lazararz fiðla, Herdís Anna Jónsdóttir víóla, Ásdís Arnardóttir selló, Þórir Jóhannsson kontrabassi, Petrea Óskarsdóttir þverflauta, Daði Kolbeinsson óbó, Einar Jóhannesson klarínett, Dagbjört Ingólfsdóttir fagott, Helgi Þ. Svavarsson horn, Daníel Þorsteinsson píanó og selesta og Hjörleifur Örn Jónsson slagverk.

Þessa tónleika ætti enginn að láta fram hjá sér fara, enda um stórviðburð að ræða. Tónlistin er einstök og hljóðfæraleikarar með þeim allra bestu. Miðar verða seldir við innganginn á aðeins 3.000 krónur.

Deildu þessu endilega 🙂Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter