Kveldúlfur á Korpúlfsstöðum 29. október

Kammerkórinn Hymnodia frá Akureyri hefur gefið út sína þriðju hljómplötu. Af því tilefni heldur kórinn útgáfutónleika í Hlöðunni á Korpúlfsstöðum laugardaginn 29. október kl. 15. Með kórnum koma fram finnsk-samíska jojk söngkonan Ulla Pirttijärvi, norski þjóðlagaslagverksleikarinn Harald Skullerud og saxófónleikarinn góðkunni Sigurður Flosason.

Hljómburður hlöðunnar á Korpúlfsstöðum er einstaklega fallegur. Það er lítið af stólum á staðnum og það getur verið nokkuð svalt þar inni. Því er um að gera að koma vel klæddur á tónleikana.

Kíkið endilega á Facebookviðburðinn

Á efnisskrá tónleikana eru kvöld- og næturljóð eftir:
Sigurð Flosason
Hjálmar H. Ragnarsson
Ulla Pirttijärvi
Michael Jón Clarke
Guðrúnu Böðvarsdóttur
John Ole Morken
Huga Guðmundsson
Árna Thorsteinsson
Kristínu Lárusdóttur
Hildigunnur Rúnarsdóttur
ásamt þjóðlögum.

Tónleikarnir taka rúma klukkustund
Miðaverð er 3000.- Miðar seldir við innganginn.
Menningarsjóður Akureyrar styrkir Hymnodiu

Hljómplatan var tekin upp á Hjalteyri við Eyjafjörð í -8°c í nóvember sl.

Í umslagi plötunnar stendur:

Gamla síldarverksmiðjan á Hjalteyri við Eyjafjörð er ógnarstór bygging og talar sínu máli um umsvif Kveldúlfs hf. sem þar bræddi síld í tæpa þrjá áratugi um miðja síðustu öld. Hrátt og kalt húsið er innblástur listafólki sem nú fæst þar við margs konar list og leikur með sjón, heyrn, snertingu, heitt og kalt, hart og mjúkt.

Á frostköldum dögum í lok nóvember 2015 hljóðritaði Hymnodia ásamt góðum vinum plötu í hlýjum hljómi ískaldrar steinsteypunnar. Útkoman er listaverkið sem þú heldur nú á og getur séð, heyrt, snert og vonandi fundið hlýju í bland við kulda – faðmlag mýktar og hörku. Þannig er Verksmiðjan á Hjalteyri.

Deildu þessu endilega 🙂Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter