Hymnodia og Voces Thules í Seltjarnarneskirkju

Hymnodia og Voces Thules eru andlega skyldir tónlistarhópar. Báðir hafa þeir farið ótroðnar slóðir sem troðnar. Í þeim báðum er áhugi á að gramsa í gömlum tónlistararfi ekki síður en yngri tónlist. Í vetur efndu þessir tveir hópar til samstarfs um tónleikahald á Akureyri og í Reykjavík. Fyrri tónleikarnir voru haldnir í Akureyrarkirkju 19. febrúar og nú verður sama efnisskráin flutt í Seltjarnarneskirkju laugardaginn 20. maí.

Sótt er í gamlan menningararf og nýtt skapað úr gömlu með framsæknum hætti. Byggt er meðal annars þeim athugunum sem félagarnir í Voces Thules hafa gert allt frá árinu 1993 á tónlistararfi fornra íslenskra handrita og prentbóka. Leikið er á miðaldahljóðfæri og gerðar tilraunir með flutning þessa gamla efnis, m.a. með spuna. Einnig eru flutt verk tónskálda frá sextándu öld.

Efnisskrá tónleikanna

Magnificat á 12

Giovanni Gabrieli (1557-1613)
úr Sacrae Symphoniae I

Fimm Hugenottasálmar

úr Lbs 508 8vo
Við lög úr safni Olthofs, frá lokum 16. aldar:

Ó þú elskulegi

Víðfrægt lofað og vegsamað

Kvöldsálmur

Ástkæri faðir

Herra Guð himneske faðer

Ave verum corpus

William Byrd (1543-1623)

Miserere mei, Deus

Gregorio Allegri (1582-1652)

Tvö danskvæði

Gaumgæfið, kristnir

Eitt sinn fór jeg yfir Rín

Um Hymnodiu

Hymnodia var stofnuð 2002 sem átta manna kór en fljótlega fjölgaði kórfélögum í sextán manns. Kórinn hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á annars vegar gamla tónlist frá barokktímanum og eldri en hins vegar nútímatónlist og tilraunir með kór sem hljóðfæri.

Kórinn hefur komið fram í yfirgefinni síldarverksmiðju og á bílaverkstæði ekki síður en sérhæfðum tónleikasölum og kirkjum hérlendis og erlendis. Þá hefur Hymnodia gefið út þrjár hljómplötur. Þegar hið óhefðbunda verður að venju verður hið hefðbundna spennandi og fram undan er hjá kórnum að setja saman efnisskrá með eftirlætistónlist kórfélaga. Með henni verða haldnir tónleikar á Norðausturlandi í haust. Ekki verður hendinni þó sleppt af hinu óhefðbundna því í september vinnur Hymnodia með þýskri leikhúslistakonu, Mareike Dobewall, og tónskáldinu Gísla Jóhanni Grétarssyni að hljóðinnsetningum þar sem kórinn er hljóðfærið og hljóðgjafinn í alls kyns hljóðtilraunum. Sýningar verða á Íslandi, í Noregi og jafnvel víðar.

Á jólatónleikum fær Hymnodia til liðs við sig framúrskarandi gesti, en meðal þeirra sem hafa verið með kórnum má nefna Sigurð Flosason, Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur sellóleikara, Láru Sóleyju Jóhannsdóttur fiðluleikara,  Hjörleif Örn Jónsson slagverksleikara  og Jón Þorsteinsson tenór.  Í undirbúningi er líka flutningur á einu stórvirkja Bachs sem nánar kemur í ljós síðar.

Um Voces Thules

Sönghópurinn Voces Thules var stofnaður 1991 og hefur náð að skipa sér sess sem einn helsti tónlistarhópur á Íslandi á sínu sviði. Í fyrstu einbeittu Voces Thules sér að flutningi á enskum og frönskum fjölradda söngvum frá 14.-16. öld, auk þess sem hópurinn frumflutti tónlist eftir nokkur íslensk tónskáld. Félagar úr hópnum hófu síðan fljótlega að skoða íslenska söngarfinn, fyrst út frá safni sr. Bjarna Þorsteinssonar og síðan beint úr handritum, og síðan 1993 hefur Voces Thules verið leiðandi afl í rannsóknum og flutningi á íslenskri tónlistarhefð miðalda. Viðamesta verkefni hópsins til þessa er heildarflutningur, hljóðritun og útgáfa á „Þorlákstíðum”, einu merkasta af íslenskum tónlistarhandritum.

Hópurinn hefur komið fram á ótal þingum og ráðstefnum tileinkuðum fornum tónlistarhandritum og sungið úr Þorlákstíðum, Nikulásartíðum, Hallvarðstíðum, Magnúsartíðum og ýmsum öðrum miðaldahandritum.

Á meðan vinnan við Þorlákstíðir fór fram varð aðalviðfangsefni hópsins smám saman íslensk miðaldatónlist. Þar hafa Voces Thules nýtt sér þjóðlög sem talin eru fornnorræn og lagað þau að öðrum textum. Í tengslum við þessa áherslu á miðaldir hefur hópurinn komið sér upp góðu safni miðaldahljóðfæra.

„Sék eld of þér”, geisladiskur ásamt veglegum bæklingi á þremur tungumálum, kom út í febrúar 2009. Diskurinn innheldur tónlist sem Voces Thules, ásamt Arngeiri Haukssyni, settu við draumkvæði úr Sturlungu en sagan hermir að sögupersónur hafi dreymt fyrir Örlygsstaðabardaga hinn 21. ágúst 1238.

Voces Thules hafa haldið tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum víða um heim, svo sem í Japan, Hollandi, Noregi. Spáni, Svíþjóð og Þýskalandi. Hér á landi hefur hópurinn oftsinnis haldið tónleika, t.d. á Listahátíð í Reykjavík, á Sumartónleikum í Skálholtskirkju og með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska Dansflokknum og CAPUT.

Hópurinn hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2006 fyrir útgáfu Þorlákstíða og var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2008 sem flytjendur ársins.

 

Deildu þessu endilega 🙂Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter